Um embættið

Samantekt ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra varðandi komu starfsmanna FBI og tveggja saksóknara til landsins í ágúst 2011

2/4/13

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar undanfarið um komu starfsmanna bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, til Íslands í ágúst 2011 skal upplýst að koma þeirra grundvallaðist á fyrirliggjandi réttarbeiðni og var liður í rannsókn þeirra og rannsókn íslensku lögreglunnar vegna mögulegrar tölvuárásar á tölvukerfi Stjórnarráðsins.  

Upphaf málsins hér á landi voru upplýsingar sem FBI kom á framfæri 20. júní 2011 um fyrirhugaða tölvuárás. Um væri að ræða alþjóðleg samtök tölvuhakkara sem hefðu hakkað sig inn í tölvukerfi fyrirtækja og stofnana víða um heim, yfirtekið kerfin og stolið gögnum.  Þann 23. júní komu fulltrúar FBI til fundar við fulltrúa ríkislögreglustjóra og gerðu frekari grein fyrir málinu. Sama dag gerðu fulltrúar ríkislögreglustjóra ríkissaksóknara og fulltrúum forsætis-, innanríkis- og utanríkisráðuneytisins grein fyrir stöðu málsins.  

Ákveðið var í framhaldi af framangreindu að lagt yrði til við FBI að leggja fram formlega réttarbeiðni þar sem óskað væri eftir aðstoð íslenskra yfirvalda í máli þessu.  Í framhaldinu kom fram réttarbeiðni frá þeim þann 4. júlí 2011 sem lögum samkvæmt var send innanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið féllst á að taka beiðnina til meðferðar og framsendi erindið ríkissaksóknara til frekari fyrirgreiðslu með bréfi 6. júlí 2011.  Sama dag framsendi ríkissaksóknari réttarbeiðnina til ríkislögreglustjóra til meðferðar.   

Hjá ríkislögreglustjóra var unnið áfram að íslenska hluta rannsóknarinnar í samvinnu við ríkissaksóknara. Um var að ræða grun um alvarleg brot sem beindust gegn íslenska ríkinu.  Þeirri rannsókn er ekki lokið en fram hafa komið vísbendingar um að íslendingur og erlendir aðilar með tengsl við Wikileaks samtökin eigi hér hlut að máli.  

Þann 7. júlí óskaði FBI síðan eftir því að fulltrúar íslensku lögreglunnar kæmu til fundar í Bandaríkjunum vegna nýrra upplýsinga sem vörðuðu Ísland og þeir vildu koma á framfæri og ráðfæra sig um við íslensku lögregluna.  Að höfðu samráði við innanríkisráðuneytið og ríkissaksóknara fóru þrír fulltrúar frá ríkislögreglustjóra til fundar með FBI í Bandaríkjunum þann 11. júlí. 

Að kvöldi 23. ágúst fékk íslenska lögreglan um það vitneskju að íslenskur maður hefði gefið sig fram við bandaríska sendiráðið á Íslandi og óskaði eftir að koma á framfæri upplýsingum til bandarískra yfirvalda sem vörðuðu málið.  FBI óskaði í kjölfarið eftir aðstoð íslensku lögreglunnar í málinu og að koma til Íslands í þeim tilgangi að funda með upplýsingaaðilanum. Með í för yrðu bandarískir saksóknarar frá New York og Virginiu.   

Ríkissaksóknari var strax upplýstur um beiðni FBI og morguninn eftir, þann 24. ágúst, hafði ríkissaksóknari samband við  innanríkisráðuneytið og gerði grein fyrir stöðu málsins. Í beinu framhaldi var haldinn fundur hjá ríkissaksóknara með þátttöku fulltrúa ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytisins.   

Á fundinum var ákveðið að heimila komu FBI til landsins og lagðar línur um fyrirkomulagið.  Tryggt yrði að íslensk lögregluyfirvöld stýrðu aðgerðum hér á landi. Farið yrði rækilega yfir málið með fulltrúum FBI og bandarísku saksóknurunum áður en rætt yrði við upplýsingaaðilann. Um væri að ræða fund með viðkomandi þar sem hann hafði óskað eftir að koma á framfæri upplýsingum.  Ekki yrði um yfirheyrslu að ræða en íslenska lögreglan þyrfti m.a. að tryggja réttarstöðu mannsins ef til þess kæmi að upplýsingar sem hann veitti bentu til þess að hann hefði framið refsiverðan verknað.  Málið færi þá í nýjan farveg og hann fengi réttarstöðu grunaðs. Í kjölfar fundarins var FBI tilkynnt að þeim væri heimilt að koma til landsins.  

Fulltrúar FBI og saksóknarar komu til landsins að kvöldi 24. ágúst. Morguninn eftir funduðu ríkissaksóknari og fulltrúar ríkislögreglustjóra með þeim um næstu skref.  Ákveðið var að íslenska lögreglan og FBI ættu fund með upplýsingaaðilanum.  Ríkissaksóknari fundaði síðan sérstaklega með bandarísku saksóknurunum þar sem farið var yfir íslensk refsi- og réttarfarslög í tengslum við málið.   

Síðar um daginn, þann 25. ágúst, um það leyti sem fulltrúar ríkislögreglustjóra og fulltrúar FBI ætluðu að funda með upplýsingaaðilanum, var ríkissaksóknari boðaður á fund í innanríkisráðuneytinu til að fjalla um þá réttarbeiðni sem lá fyrir frá bandarískum stjórnvöldum. Á fundinum kynnti ráðuneytið það álit að yfirstandandi aðgerð félli utan við réttarbeiðnina og FBI þyrfti að leggja fram nýja réttarbeiðni vegna þessa.  Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við íslensku lögreglumennina og gaf fyrirmæli um að íslenska lögreglan tæki ekki þátt í þessari aðgerð með FBI og boðaði lögreglumennina til fundar í ráðuneytinu.    

Á fundinum ítrekaði innanríkisráðherra fyrirmæli ráðuneytisstjórans um að íslenska lögreglan tæki ekki þátt í aðgerðinni og drægi sig út úr málinu.   

Fulltrúar FBI héldu áfram viðræðum við upplýsingaaðilann næstu daga án aðkomu íslensku lögreglunnar. Þann 30. ágúst upplýstu fulltrúar FBI fulltrúa ríkislögreglustjóra um að sendiráði Bandaríkjanna hefði verið tjáð sú ósk utanríkis- og innanríkisráðuneytisins að FBI ræddi ekki frekar við upplýsingaaðilann hér á landi auk þess sem gefið var í skyn að vera þeirra hér á landi væri talin óæskileg.  Í framhaldi af því yfirgáfu þeir landið.  

 

Reykjavík, 4. febrúar 2013

Ríkissaksóknari

Ríkislögreglustjóri

Samantektin á PDF formi

Til baka Senda grein