Um embættið

Um manndráp af gáleysi

5/24/14


Um manndráp af gáleysi er fjallað í 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir:

„Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.“

Ákvæðið á jafnt við um alla, óháð starfsstétt og stöðu. Ef gegn og skynsamur maður (svokallaður bonus pater familias) sem getur verið rútubílstjóri, flugmaður, skipstjóri, verkstjóri, læknir, hjúkrunarfræðingur, eða hver annar, hefði átt að gera sér grein fyrir tilteknum aðstæðum og bregðast við í samræmi við það en hann/hún hefur hins vegar ekki gætt þeirrar varkárni sem af honum/henni mátti ætlast, er um refsivert gáleysi að ræða. Greina þarf refsivert gáleysi frá óhappatilviljun og lítilfjörlegu gáleysi, sem getur ekki orðið grundvöllur refsiábyrgðar.

Markmið gáleysisábyrgðar er að knýja menn til aukinnar aðgæslu innan sanngjarnra marka. Ástæður aðgæsluskorts skipta yfirleitt ekki máli við ákvörðun um það hvort brot hafi verið framið. Það getur hins vegar haft áhrif á ákvörðun refsingar.

Flest mál sem ákæruvaldið hefur haft til meðferðar þar sem ákært hefur verið fyrir manndráp af gáleysi eru vegna atvika í umferðinni, og liggja fyrir dómar Hæstaréttar í þeim málum þar sem m.a. vörubifreiðastjóri, rútubílstjóri, strætisvagnastjóri og skólabílstjóri hafa verið sakfelldir fyrir manndráp af gáleysi.

Þau mál sem ákæruvaldið hefur haft til meðferðar og varða ætluð refsiverð brot starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni hafa hins vegar verið afar fátíð og sönnunarstaðan í þeim málum sem þó hafa borist hefur gjarnan verið með þeim hætti að málin voru felld niður á grundvelli sönnunarskorts.

Samkvæmt meginreglu 142. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal sérhver refsiverð háttsemi sæta ákæru nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.

Í 145. sakamálalaga segir að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi skv. 152. gr., sbr. þó 146. gr.

Í 146. gr. eru síðan tilgreindar þær ástæður sem leitt geta til þess að fallið sé frá höfðun sakamáls þrátt fyrir að ákærandi telji mál líklegt til sakfellis. Engin þeirra var talin eiga við í því máli sem til umfjöllunar hefur verið og varðar ætlað manndráp af gáleysi af hálfu hjúkrunarfræðings á gjörgæsludeild Landspítala.

Til baka Senda grein