Fyrirmæli

Fyrirmæli um rafrænar gagnasendingar og birtingar í stafrænu pósthólfi

RS: 5/2023

  • Útgáfudagur:

    12. október 2023

  • Gildistaka:

    12. október 2023

  • RS:5/2023

1. Almenn atriði

Fyrirmæli þessi eru sett til að stuðla að og tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd til að miðla gögnum og upplýsingum við meðferð mála hjá lögreglu og ákæruvaldi í því skyni að auka gagnsæi og hagkvæmni.

Um stafrænt pósthólf á gilda lög nr. 105/2021 um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

Ákvarðanir, tilkynningar og önnur bréf í tengslum við rannsókn og meðferð sakamála skulu birt eða send með stafrænum hætti í gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 105/2021, eða með öðrum öruggum stafrænum hætti, nema því verði ekki við komið.

2. Stafrænt pósthólf

Stafrænt pósthólf er lokað svæði á Ísland.is þar sem birtar eru og geymdar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja. Allt efni er vistað hjá þeim opinbera aðila sem býr það til en stafræna pósthólfið gerir einstaklingum og lögaðilum kleift að nálgast efni til skoðunar í gegnum mínar síður á Ísland.is.

Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá á hverjum tíma hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi. Forráðamenn hafa aðgang að gögnum barna sinna í stafrænu pósthólfi að 18 ára aldri.

3. Birting í stafrænu pósthólfi

Þegar skjöl eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda, sbr. 7. gr. laga nr. 105/2021. Gögn teljast hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi viðtakanda um leið og viðtakandi getur skoðað þau í nettengdu tæki. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi skráð sig inn í pósthólfið og kynnt sér gögnin, heldur teljist gögnin birt frá og með því tímamarki sem þau voru gerð aðgengileg í pósthólfinu og viðkomandi hefði þar með getað kynnt sér gögnin.

Þar sem í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum er kveðið á um að gögn skuli birt á ákveðinn hátt, skal birting í stafrænu pósthólfi metin fullgild.

a) Hvaða skjöl skal birta í stafrænu pósthólfi

Allar ákvarðanir og tilkynningar samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem og önnur bréf eða tilkynningar, til einstaklings eða lögaðila í tengslum við rannsókn og meðferð sakamáls, skal birta í stafrænu pósthólfi.

Óski einstaklingur eða lögaðili einnig eftir að fá gögn á annan hátt en í stafrænt pósthólf skal verða við því. Gögnin verða þó áfram aðgengileg stafrænt.

Afrit af málsgögnum skulu ekki gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi. Um rafræna afhendingu málsgagna vísast til kafla 4.

b) Framkvæmd:

Birting skjals í stafrænu pósthólfi skal framkvæmd í gegnum málaskrárkerfi lögreglu (LÖKE) ef skjalið heyrir undir mál í LÖKE, en annars í gegnum aðra skjalaveitu, s.s. GoPro, ef unnt er.

c) Hverjum skal birta í stafrænu pósthólfi:

- Sakborningi
- Brotaþola/kæranda, hafi hann hagsmuna að gæta
- Forráðamanni sakbornings og brotaþola
- Lögaðila sem skráður er í fyrirtækjaskrá

d) Hverjum skal ekki birta í stafrænu pósthólfi:

- Einstaklingi sem ekki hefur íslenska kennitölu
- Lögaðila sem ekki er skráður í fyrirtækjaskrá
- Lögmanni sakbornings og brotaþola/kæranda
- Barnaverndaryfirvöldum
- Lögregluembættum, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara
- Nefnd um eftirlit með lögreglu
- Dómstólum og öðrum opinberum aðilum

4. Aðrar stafrænar birtingar og rafrænn gagnaflutningur

Ákvarðanir, tilkynningar og önnur bréf, eða afrit af slíkum bréfum, sem ekki verða birt í stafrænu pósthólfi, sbr. kafli 3. d), skal senda rafrænt með öruggum hætti eins og Signet Transfer nema því verði ekki við komið.

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um afhendingu málsgagna skulu þau afhent rafrænt með öruggum hætti ef mögulegt er.

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl