Sakborningar

Upplýsingar fyrir sakborninga

INNGANGUR

Hér er að finna upplýsingar um meðferð sakamála fyrir þá sem hafa fengið stöðu sakbornings í sakamáli, allt frá því að tilkynnt er um brot til lögreglu og þar til máli lýkur endanlega. Sakborningur nýtur margs konar réttinda á meðan sakamál er til rannsóknar hjá lögreglu, til meðferðar hjá ákæruvaldi eða fyrir dómi.

STAÐA SAKBORNINGS

Sakborningur er sá maður sem borinn er sökum eða grunaður um refsiverða háttsemi. Lögaðilar sem eru sakaðir eða grunaðir um að bera ábyrgð á refsiverðri háttsemi geta einnig verið sakborningar. Fyrirsvarsmenn hafa sömu réttarstöðu og væru þeir sjálfir bornir sökum eða grunaðir um refsiverða háttsemi. Ef sakborningur er ólögráða kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður hans eftir því sem þörf krefur. Við rannsókn sakamáls ber lögreglu að gæta þess að sakborningi verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er.

RÉTTUR SAKBORNINGS

Sakborningur á rétt á verjanda við rannsókn máls hjá lögreglu sem og við meðferð sakamáls fyrir dómi. Verjandi getur til dæmis leiðbeint sakborningi um rétt hans og réttindi við meðferð máls hjá lögreglu og er með sakborningi þegar hann er í skýrslutöku hjá lögreglu. Sakborningur þarf ekki að tjá sig fremur en hann vill um sakarefni málsins eða að svara spurningum lögreglu við rannsókn málsins. Það er grundvallarregla að sakborningur telst saklaus þangað til sekt hans er sönnuð og sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu. Allan vafa um sekt sakbornings varðar ber að túlka honum í hag.

HLUTVERK VERJANDA

Sakborningur á rétt á að fá upplýsingar um sakarefni, þ.e. það sem hann er sakaður um, áður en skýrsla er tekin af honum hjá lögreglu. Meðan á rannsókn lögreglu stendur er verjanda alltaf heimilt að vera viðstaddur þegar tekin er skýrsla af skjólstæðingi hans. Verjanda er heimilt að tala einslega við sakborning um allt sem málið varðar og á að gæta hagsmuna sakbornings og halda uppi vörnum fyrir sakborning komi til þess að málið fari fyrir dóm. Hlutverk verjanda er að draga fram í málinu allt sem verða má sakborningi til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans til hins ítrasta.

Verjanda er heimilt að heimsækja sakborning í fangelsi og ræða málið við sakborning á meðan sakborningur er í haldi. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á verjandi rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í máli og ber dómara að tilkynna honum um þau. Eftir að dómur hefur fallið í máli er það hlutverk verjanda að leiðbeina ákærða um næstu skref, t.d. um áfrýjun hafi niðurstaða dóms verið sakfelling. Þagnarskylda hvílir á verjanda um það sem skjólstæðingur trúir honum fyrir um afstöðu sína til brotsins og um önnur þau atriði sem hann hefur komist að í starfi sínu sem verjandi.

RÉTTUR SAKBORNINGS TIL AÐGANGS AÐ GÖGNUM

Verjandi sakbornings á að fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans eins fljótt og hægt er. Verjandi á jafnframt að fá aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Lögregla getur þó neitað verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef lögregla telur að aðgangur verjanda að gögnunum geti skaðað rannsókn málsins. Lögreglu er einnig heimilt að neita verjanda um afrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur telji hún að það geti skaðað rannsókn málsins. Bera má synjun um aðgang að gögnum undir dómara. 

Þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum jafnframt heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af gögnunum eða kynna honum þau með öðrum hætti. Lögregla á einnig að gefa verjanda færi á að fylgjast með framvindu rannsóknar að svo miklu leyti sem kostur er.

SKÝRSLUTAKA HJÁ LÖGREGLU

Í flestum sakamálum eru skýrslur af sakborningi, brotaþola og vitnum mikilvægustu þættir rannsóknar lögreglu. Leiði rannsókn lögreglu til útgáfu ákæru eru þessar skýrslur hluti af gögnum málsins fyrir dómi. Almennt fer skýrslutaka af sakborningi fram á lögreglustöð en stundum er fyrsta skýrsla tekin strax á vettvangi hins ætlaða brots. Sakborningur á alltaf rétt á því að verjandi sé með honum við skýrslutöku hjá lögreglu. Skýrslutaka af sakborningi fer fram fyrir luktum dyrum, þ.e. þar eru engir aðrir viðstaddir en sakborningur, verjandi hans og fulltrúi frá lögreglu sem stýrir skýrslutökunni. Skýrslan er tekin upp í hljóði og stundum er hún einnig tekin upp í mynd. Lögregla skrifar skýrslu um það sem sakborningur hafði um málið að segja, ýmist þannig að gerð er samantekt um framburð hans eða að framburðurinn er skrifaður upp frá orði til orðs. Nánari upplýsingar um framkvæmd skýrslutöku hjá lögreglu er að finna í reglugerð nr. 651/2009. Skýrslur sem teknar eru af sakborningi við rannsókn lögreglu verða hluti af rannsóknargögnum málsins.

HVERNIG FER SKÝRSLUTAKA HJÁ LÖGREGLU FRAM?

Áður en skýrslutaka hefst upplýsir lögregla sakborning um hver sú háttsemi er sem hann er grunaður um. Lögreglu ber jafnframt að upplýsa sakborning um að honum sé ekki skylt að tjá sig eða að svara spurningum lögreglu. Sá sem gefur skýrslu er í upphafi skýrslutöku hjá lögreglu spurður um nafn, kennitölu og heimili. Ef sakborningur kýs að gefa skýrslu er brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Lögregla spyr sakborning spurninga um þau atriði sem rannsóknin beinist að og eiga spurningar lögreglu að vera skýrar og ótvíræðar. Ef verjandi er viðstaddur skýrslutöku getur hann beint þeim tilmælum til lögreglu að sakborningur verði spurður um tiltekin atriði. Sakborningur má ekki ráðfæra sig við verjanda sinn um hvernig hann á að svara einstökum spurningum en er heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn í einrúmi, ef það truflar ekki skýrslutöku að mati lögreglu. Það er misjafnt eftir málum hversu oft sakborningur fer í skýrslutöku hjá lögreglu við rannsókn máls.

SAKBORNINGUR YNGRI EN 18 ÁRA

Ef taka á skýrslu af sakborningi sem er yngri en 18 ára vegna ætlaðs brots gegn almennum hegningarlögum eða brots gegn öðrum lögum, sem varðað getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, skal tilkynna það barnaverndarnefnd sem getur jafnframt sent fulltrúa sinn til að vera við skýrslutökuna. Hér er að finna frekari upplýsingar um rétt barna og ungmenna .

TÚLKUN VIÐ SKÝRSLUTÖKU

Ef sakborningur kann ekki íslensku nægilega vel kallar lögregla til löggiltan dómtúlk eða annan hæfan mann til að annast þýðingu þess sem fram fer. Lögregla kallar til táknmálstúlk ef skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Greiðist kostnaður vegna þessa úr ríkissjóði.

HANDTAKA

Lögregla getur handtekið mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru og ef handtaka er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, eða til að tryggja návist sakbornings eða öryggi hans eða annarra, eða til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Skilyrði handtöku er því að handtaka sé talin nauðsynleg. Við handtöku skal upplýsa þann sem handtekinn er um ástæður hennar. Sakborningur sem hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls á rétt á að hafa samband við lögmann strax eftir handtöku sem og nánustu vandamenn sína nema sérstök ástæða sé til að ætla að það muni torvelda rannsókn málsins. Þá á lögregla, eins fljótt og unnt er, að tilkynna nánustu vandamönnum sakbornings að hann hafi verið handtekinn og hvar hann sé vistaður. Lögreglu er skylt að verða við ósk sakbornings um að tilnefna honum verjanda ef hann hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls. Leita má á handteknum manni og taka af honum muni sem hann hefur á sér. Almennt skal mununum skilað aftur þegar handtöku lýkur.

HANDTEKNU MANNI EKKI HALDIÐ LENGUR EN 24 KLST.

Lögregla getur haldið handteknum manni/sakborningi í allt að 24 klukkustundir en verður að láta hann lausan eftir það. Ef ætlunin er að halda sakborningi lengur þarf að setja fram kröfu um gæsluvarðhald fyrir dómi. Sé farið fram á að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi mætir verjandi með sakborningi fyrir dóminn og gætir hagsmuna hans þar.

GÆSLUVARÐHALD

Við rannsókn máls getur lögregla krafist þess að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gæsluvarðhald er ákveðið með úrskurði dómara. Gæsluvarðhald telst ekki afplánun en kemur að yfirleitt til frádráttar fangelsisrefsingu ef sakborningur er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds. Ef gæsluvarðhalds er krafist yfir sakborningi er dómara skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda. Gæsluvarðhald verður aðeins framlengt með nýjum dómsúrskurði. Gæsluvarðhald skal ekki vara lengur en þörf krefur og sakborning á að láta lausan um leið og ástæður til gæsluvarðhalds eru ekki lengur fyrir hendi. Ekki er heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum með útgáfu ákæru eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

EINANGRUN

Stundum er þess krafist að sakborningur verði látinn sæta einangrun í gæsluvarðhaldi og þá þarf dómari að taka afstöðu til þess í úrskurði. Ekki má úrskurða sakborning í einangrun nema hún sé nauðsynleg. Einangrun má ekki standa samfleytt lengur en í fjórar vikur nema sá sem henni sætir sé sakaður um brot sem varðað getur að lögum 10 ára fangelsi.

SKILYRÐI GÆSLUVARÐHALDS

Skilyrði gæsluvarðhalds er að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og náð 15 ára aldri. Auk þess verður eitthvert af eftirfarandi skilyrðum að vera uppfyllt:

a. Að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni,

b. Að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,

c. Að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi,

d. Að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings eða hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

Úrskurða má sakborning í gæsluvarðhald þótt þessi skilyrði séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að sakborningur hafi framið afbrot sem getur varðað 10 ára fangelsi og að brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

RÉTTUR GÆSLUVARÐHALDSFANGA

Um gæsluvarðhald gilda almennt þessar reglur:

a. Gæsluföngum er heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði og öðrum persónulegum nauðsynjum, þar á meðal fatnaði,

b. Gæslufangar skulu aðeins látnir vera í einrúmi samkvæmt úrskurði dómara en þó skulu þeir ekki gegn vilja sínum hafðir með öðrum föngum,

c. Gæslufangar eiga rétt á heimsóknum. Þó getur sá sem rannsókn stýrir bannað heimsóknir ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknarinnar en skylt er að verða við óskum gæslufanga um að hafa samband við verjanda og ræða við hann einslega, auk þess sem rétt að verða við óskum gæslufanga um að hafa samband við lækni eða prest, ef þess er kostur,

d. Gæslufangar mega nota síma eða önnur fjarskiptatæki og senda og taka við bréfum og öðrum skjölum. Þó getur sá sem rannsókn stýrir bannað notkun síma eða annarra fjarskiptatækja og látið athuga efni bréfa eða annarra skjala og kyrrsett þau ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknarinnar en gera skal sendanda viðvart um kyrrsetningu, ef því er að skipta,

e. Gæslufangar mega lesa dagblöð og bækur, svo og fylgjast með hljóðvarpi og sjónvarpi. Þó getur sá sem rannsókn stýrir takmarkað aðgang gæslufanga að fjölmiðlum ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar,

f. Gæsluföngum er, eftir því sem unnt er, heimilt að útvega sér vinnu meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

HALDLAGNING MUNA

Við rannsókn sakamáls hjá lögreglu er stundum nauðsynlegt að leggja hald á ákveðna muni sem sakborningur á eða hefur í fórum sínum, svo sem síma, tölvu og þá muni sem lögregla telur að hafi sönnunargildi í sakamáli eða vegna þess að þeirra hefur verið aflað á refisverðan hátt. Haldlagning er því fólgin í því að maður er sviptur vörslum muna að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

HÚSLEIT

Þegar rökstuddur grunur er um að brot hafi verið framið sem varðað getur fangelsisrefsingu getur lögregla fengið heimild til að leita í húsum, hirslum og farartækjum bæði sakbornings og annarra manna að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Meginreglan er sú að lögregla getur einungis framkvæmt húsleit á grundvelli dómsúrskurðar nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns eða ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Leit er heimil án dómsúrskurðar á víðavangi og í húsakynnum eða farartækjum, sem eru opin almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um.

KYRRSETNING

Lögregla getur krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni verulega. Þetta getur lögregla gert til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Kyrrsetning fellur niður ef ákærði hefur verið sýknaður með endanlegum dómi af greiðslu sektar og sakarkostnaðar eða upptaka ávinnings hefur ekki verið dæmd. Sama á við ef saksókn hefur verið felld niður eða rannsókn leiðir ekki til saksóknar. Sakborningur á þá rétt á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að tryggja kyrrsetningu. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef sakborningur innir af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.

SÍMAHLUSTUN

Símahlustun er ein þeirra aðgerða sem flokkast undir þvingunarráðstafanir sem lögregla getur gripið til við rannsókn sakamála. Símahlustun verður ekki beitt án þess að fyrir liggi úrskurður dómara.

FARBANN

Við rannsókn sakamáls hjá lögreglu eða á meðan sakamál er til meðferðar hjá ákæruvaldinu getur komið til þess að farið sé fram á að ferðafrelsi sakbornings verði skert, oftast með þeim hætti að honum er bannað að fara af landi brott. Það er gert með úrskurði dómara.

LEIT Á SAKBORNINGI

Leita má á sakborningi ef nauðsynlegt þykir til að taka af honum muni sem hald skal leggja á, ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum eða tveggja ára fangelsi samkvæmt öðrum lögum. Einnig má með sömu skilyrðum leita á öðrum en sakborningi, enda leiki rökstuddur grunur á að hann hafi á sér muni sem hald skal leggja á. Ef talið er að sakborningur feli innvortis muni eða efni sem hald skal leggja á er þá heimilt að framkvæma leit, ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem varðað getur sex ára fangelsi að lögum. Enn fremur verður að liggja fyrir álit læknis um að óhætt sé að grípa til leitar samkvæmt þessari málsgrein með tilliti til heilsu sakborningsins.

FINGRAFÖR OG SÝNATAKA

Taka má fingraför af sakborningi og ljósmyndir af honum í þágu rannsóknar og taka úr honum öndunarsýni í sama tilgangi. Einnig er heimilt að taka blóð- og þvagsýni og önnur lífsýni úr sakborningi og rannsaka þau, ef fyrir liggur rökstuddur grunur á að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum. Líkamsleit skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á. Þó getur líkamsleit verið heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.

MÁLALOK

Eftir að lögreglu berst tilkynning eða kæra um brot eða eftir að lögregla hefur rannsókn á máli getur málinu lokið með ýmsum hætti. Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef kæru er vísað frá eða rannsókn hætt er lögreglu skylt að tilkynna það kæranda hafi hann hagsmuna að gæta. Skal honum jafnframt bent á að hann geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.

MÁL FELLT NIÐUR

Telji ákærandi að lokinni rannsókn sakamáls það sem fram er komið ekki vera nægilegt eða líklegt til sakfellis fellir hann málið niður. Felli ákærandi mál niður ber að tilkynna það þeim sem hagsmuna hafa að gæta og er hægt að óska eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun. Ákvörðunina er unnt að kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.

ÁKÆRUFRESTUN

Með ákærufrestun er útgáfu ákæru frestað um tiltekinn tíma. Skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis er að sakborningur hafi játað brot sitt. Heimilt er að beita þessu úrræði ef brot er framið af einstaklingi á aldrinum 15-21 árs eða högum sakbornings er þannig háttað að umsjón eða aðrar ráðstafanir teljast vænlegri til árangurs en refsing. Skilyrði þessa úrræðis er að brotið teljist ekki þess eðlis að almannahagsmunir krefjist saksóknar.

FALLIÐ FRÁ SAKSÓKN

Heimilt er að falla frá saksókn og höfða ekki sakamál á hendur sakborningi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Á það m.a. við ef mál er smávægilegt og fyrirsjáanlegt að umfang málsins verði í verulegu ósamræmi við þá refsingu sem vænta má, ef sakborningur virðist vera ósakhæfur eða ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum.

MÁLSMEÐFERÐ FYRIR HÉRAÐSDÓMI

Ef rannsókn lögreglu leiðir til þess að ákæra er gefin út ber ákærðum manni skylda til að koma fyrir dóm og svara þar til saka. Þegar sakamál hefur borist héraðsdómi frá ákæruvaldinu gefur dómari út fyrirkall á hendur ákærða þar sem fram kemur hvar og hvenær málið verði þingfest fyrir dómi.

ÞINGFESTING

Við þingfestingu sakamáls fyrir héraðsdómi er ákæran kynnt fyrir ákærða og hann spurður að því hvort hann játi eða neiti sök samkvæmt því sem í ákærunni segir. Ákærði getur fengið frest til að kynna sér sakarefnið og taka afstöðu til þess sem hann er sakaður um í ákæru. Ef ákærður maður mætir ekki fyrir dómi getur hann átt von á því að lögregla sæki hann og færi fyrir dóminn.

ÚTIVISTARMÁL

Í undantekningartilvikum má leggja dóm á mál þó ákærði hafi ekki mætt fyrir dóminn. Það er heimilt ef ákærði hefur ekki lögmæt forföll og tekið hefur verið fram í fyrirkalli að málið kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum í tilvikum þar sem brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna og sviptingu réttinda og einnig í tilvikum þar sem ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls og skýlaust játað sök.

AÐALMEÐFERÐ

Neiti ákærði sök er í kjölfarið ákveðið hvenær svokölluð aðalmeðferð fer fram. Skylt er að skipa ákærða verjanda ef málið fer í aðalmeðferð nema ákærði óski eftir að flytja mál sitt sjálfur.

Þegar aðalmeðferð fer fram gefur ákærði fyrst skýrslu. Ákærða er óskylt að svara spurningum varðandi þá refsiverðu hegðun sem honum er gefin að sök og á rétt á að neita því alfarið að gefa skýrslu um sakarefnið. Skýrslutaka af fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu en það eru þó fleiri viðstaddir í dómsalnum. Í dómsalnum eru viðstaddir dómari, eða dómarar, sækjandi, verjandi og réttargæslumaður í þeim tilvikum þar sem brotaþoli hefur fengið réttargæslumann skipaðan, og stundum enn fleiri þegar um opin þinghöld er að ræða. Sá sem gefur skýrslu fyrir dómi situr í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum, séð frá þeim sem skýrsluna gefur, sitja sækjandi og mögulega réttargæslumaður, en hægra megin situr verjandi og einnig ákærði þegar hann er ekki að gefa skýrslu.

Það er sækjandi sem spyr spurninga fyrst en eftir að hann hefur spurt ákærða spyr verjandi ákærða spurninga og þá spyr dómari stundum ákærða spurninga einnig. Ákærði á rétt á því að sitja og hlýða á framburði annarra vitna en í framkvæmd er ákærða oft gert að víkja þegar brotaþolar í kynferðisbrotamálum gefa skýrslu. Á eftir skýrslutöku ákærða er komið að vitnum málsins að gefa skýrslu, sem koma fyrir dóminn eitt í einu. Rétt eins og við skýrslutöku ákærða þá er það ákærandi sem fyrst spyr þau spurninga um atvik málsins. Undantekning á þessu eru þau vitni sem koma fyrir dóminn sérstaklega af hálfu ákærða en þá byrjar verjandi að spyrja spurninga og ákærandi getur svo spurt spurninga þegar verjandi hefur lokið skýrslutökunni.

MUNNLEGUR MÁLFLUTNINGUR

Eftir skýrslutökur fer fram munnlegur málflutningur en þá flytur ákærandi ræðu fyrst og svo verjandi. Í þeim tilvikum þar sem réttargæslumaður er viðstaddur aðalmeðferð fyrir hönd brotaþola þá flytur réttargæslumaður sína ræðu á eftir ákæranda. Eftir málflutninginn er mál dómtekið en dómari hefur 4 vikur til þess að kveða upp dóm sinn í málinu.

Almenna reglan er sú að almenningur megi mæta í dómsal hafi fólk áhuga á því að fylgjast með meðferð sakamáls fyrir dómi. Undantekning á þessari reglu varðar einkum viðkvæm mál svo sem kynferðisbrotamál og mál sem varða ofbeldi í nánum samböndum, en þá er málsmeðferðin lokuð almenningi og fjölmiðlum til verndar hlutaðeigandi.

JÁTNING FYRIR DÓMI

Meðferð mála þar sem ákærði játar sök er aðeins frábrugðin þeirri þegar ákærði neitar sök. Þá er yfirleitt ekki talin þörf á því að taka skýrslur af vitnum og ekki fjallað sérstaklega um sönnunargögn málsins. Ákærandi og verjandi fjalla í málflutningsræðum sínum þá fyrst og fremst um það hver refsing eigi að vera fyrir það brot sem hefur verið játað. Öll málsmeðferðin er því styttri og í ákveðnum tilvikum er dómur kveðinn upp strax í kjölfarið. Miðað er við það að játning ákærða hafi áhrif á það hver hin dæmda refsing er í málinu, að ákærður maður njóti þess að játa brot sitt greiðlega fyrir dómi.

DÓMUR

Dómur er skrifleg niðurstaða dómstóls um efni tiltekins máls sem hefur að geyma forsendur og dómsorð. Dómur er bindandi fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau efnisatriði sem þar eru dæmd.

ÁFRÝJUN TIL LANDSRÉTTAR

Sá sem hefur verið sakfelldur með héraðsdómi getur áfrýjað dómnum til Landréttar ef hann hefur verið dæmdur í fangelsi eða til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð í einkamáli. Áfrýjun þarf að lýsa yfir í bréflegri tilkynningu sem verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans.

ÞÓKNUN VERJANDA GREIDD ÚR RÍKISSJÓÐI

Þóknun skipaðs verjanda er ákveðin í dómi nema verjandi hafi afsalað sér þóknun. Þóknun skipaðs eða tilnefnds verjanda greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar. Ef ákærður maður er sakfelldur fyrir dómi er hann almennt dæmdur til að greiða sakarkostnað málsins. Kostnaðurinn er greiddur af ríkissjóði en gerð er krafa um að ákærði greiði ríkinu þann kostnað. Ef ákærður maður er sýknaður greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði.