Fyrirmæli

Nálgunarbann og brottvísun af heimili

RS: 1/2024

  • Útgáfudagur:

    20. febrúar 2024

  • Gildistaka:

    20. febrúar 2024

  • RS:1/2024

  1. Lögregla skal ávallt huga að því hvort rétt sé að beita vægara úrræði en nálgunarbanni eða brottvísun af heimili þegar viðkomandi hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn ákvæði 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt úrræði skal felast í því að lögregla geri samkomulag við sakborning um að hann undirriti yfirlýsingu í lok skýrslutöku sem felur efnislega í sér hið sama og nálgunarbann eða brottvísun af heimili þó án þess að formleg ákvörðun hafi verið tekin um slíkt. Í yfirlýsingunni skal tekið fram að ef ekki verður staðið við efni yfirlýsingarinnar kunni að koma til beitingar úrræða samkvæmt lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
  2. Þegar lögregla rannsakar brot gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili getur verið nauðsynlegt vegna rannsóknarhagsmuna að leggja hald á síma, tölvur og aðra muni sem ætla má að sakborningur hafi notað við framningu brotanna og eftir atvikum í því skyni að þeir munir verði gerðir upptækir með dómi, sbr. 1. töluliður 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga.
  3. Hraða ber málsmeðferð eins og kostur er við rannsókn brota gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili. Ríkissaksóknari bendir á að ákvæði 143. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki afdráttarlaust þannig að ekki verði frá því vikið. Er lögreglustjórum heimilt að líta til verndarhagmuna brotaþola í þessu efni og höfða mál þó ekki sé unnt að gera það í einu lagi fyrir öll þau brot sem til rannsóknar eru.
  4. Þegar um ítrekuð brot sakbornings gegn nálgunarbanni er að ræða og ákvæði c. eða d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála eru uppfyllt en ekki er talin ástæða til að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi er rétt að gera kröfu um að sakborningur hafi á sér búnað (ökklaband) svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl