Fyrirmæli

Rannsókn og meðferð mála er varða ósakhæf börn (yngri en 15 ára)

RS: 2/2024

  • Útgáfudagur:

    20. febrúar 2024

  • Gildistaka:

    20. febrúar 2024 

  • RS:2/2024
    Kemur í stað RS: 9/2009

1. Almenn atriði

Fyrirmæli þessi eiga við um mál þar sem rannsókn beinist að broti barna sem voru ósakhæf á verknaðarstundu.

Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telst barn sakhæft við lok 15. afmælisdags. Börn sem ekki hafa náð þeim aldri bera ekki refsiábyrgð og verður ekki refsað fyrir brot sín og teljast því ekki sakborningar í skilningi laga um meðferð sakamála.

Lögregla rannsakar því almennt ekki brot ósakhæfra barna en þarf engu að síður að ganga úr skugga um hvort barn hafi verið ósakhæft sökum aldurs á verknaðarstundu. Leiði rannsókn í ljós að svo hafi verið skal almennt hætta rannsókn málsins hjá lögreglu og senda tilkynningu til barnaverndarþjónustu.

Atvik máls geta engu að síður verið með þeim þætti að lögreglu beri að rannsaka brot ósakhæfra barna svo sem til að:

- Leiða í ljós umfang brots
- Ganga úr skugga um hvort aðrir kunna að eiga þátt í broti
- Rannsaka þátt annarra í broti
- Hafa uppá og/eða skila munum sem hafa verið andlag brots
- Koma í veg fyrir áframhaldandi brot

Þegar lögregla rannsakar brot ósakhæfs barns skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarþjónustu og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins, sbr. 18. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Nú kemur fram við rannsókn að barn undir 15 ára hafi gerst sekt um refsiverða háttsemi, skal gera barnaverndarþjónustu grein fyrir málavöxtum að lokinni rannsókn, sé þess óskað. Heimilt er að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og afrit rannsóknargagna enda varði þau beinlínis brot hins ósakhæfa barns, sbr. 3. mgr. 44. gr. barnaverndarlaga.

Lögregla skal hafa samstarf við barnaverndaryfirvöld hvort sem mál er til rannsóknar hjá lögreglu eða barnaverndarþjónustu og veita aðstoð við úrlausn mála, sé þess óskað, sbr. 20. barnaverndarlaga.

2. Skýrslutaka/viðtal hjá lögreglu af barni

Ef lögregla rannsakar brot barns sem fyrir liggur að var ósakhæft á verknaðarstundu er heimilt að taka skýrslu af barninu vegna málsins. Þegar skýrslutaka fer fram hjá lögreglu skal það almennt gert fyrir luktum dyrum, sbr. 62. gr. laga um meðferð sakamála.

Tilkynna ber um væntanlega skýrslutöku til barnaverndarþjónustu sem getur sent fulltrúa til að vera viðstaddan hana.

Lögregla skal einnig gera forráðamanni viðvart um skýrslutöku. Ef aðstæður eru sérstakar, s.s. vegna þroska barns, ungs aldurs þess eða alvarleika máls skal lögregla hafa samráð við forráðamenn og eftir atvikum gefa þeim kost á að vera viðstaddir skýrslutöku nema aðstæður mæli gegn því að mati lögreglu, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Ef forráðamaður neitar að tekin verði skýrsla af ósakhæfu barni skal lögregla láta við svo búið standa.

Æskilegt er að skýrslutaka af ósakhæfu barni sé í formi viðtals. Gæta skal fyllstu tillitssemi þegar tekin er skýrsla af barni. Skýrslutakan skal fara fram við aðstæður sem hæfa, sbr. 6. gr. sömu reglugerðar.

Barninu skal kynnt að því beri ekki skylda til að tjá sig um ætlað brot sitt en ef það kýs að tjá sig skal brýnt fyrir barninu að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Eftir atvikum skal barninu kynnt inntak 117. gr. sakamálalaga. Barn undir 15 ára hefur ekki stöðu sakbornings og á því ekki rétt á að fá tilnefndan verjanda en þó er forráðamönnum barns heimilt að leita aðstoðar lögmanns á sinn kostnað sem má þá vera viðstaddur skýrslutöku/viðtal af barninu.

Gera skal skýrslu um skýrslutökuna með venjulegum hætti, sbr. 66. gr. laga um meðferð sakamála. Að jafnaði skal taka skýrslu upp með hljóði og mynd.

3. Þvingunarúrræði

Þvingunarúrræðum við rannsóknir sakamála verður almennt ekki beitt gagnvart ósakhæfum börnum nema í algjörum undantekningartilvikum, enda sé þá skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir hendi.

3.1 Handtaka

Í algjörum undantekningartilvikum er heimilt að handtaka ósakhæft barn og færa það án samþykkis þess á lögreglustöð eða annan viðeigandi stað, s.s. í því skyni að halda uppi lögum og reglu, sbr. til hliðsjónar a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Tilkynna skal forráðamönnum og barnaverndarþjónustu þegar í stað um slík afskipti lögreglu.

Handtaka skal vara í eins skamman tíma og unnt er og við aðstæður sem hæfa barni. Ekki má færa barn í fangaklefa eða biðstofu þar sem handteknir eru vistaðir til bráðabirgða nema önnur aðstaða sé ekki fyrir hendi. Ekki skal beita handjárnum eða öðrum búnaði sem lögreglan notar við valdbeitingu, nema brýna nauðsyn beri til og önnur úrræði verið fullreynd.

3.2 Önnur þvingunarúrræði laga um meðferð sakamála

Gagnvart ósakhæfu barni er heimilt að beita haldlagningu skv. IX. kafla laga um meðferð sakamála og öðrum þvingunarúrræðum, sem unnt er að beita gagnvart þeim sem ekki eru sakaðir í máli, s.s. húsleit og líkamsleit, sbr. 78. og 79 gr. laganna.

4. Skráning í LÖKE

Öll afskipti lögreglu af börnum og ungmennum skal skrá í LÖKE.

Þegar lögregla rannsakar brot ósakhæfs barns eða hefur afskipti af ósakhæfu barni vegna meints brots ber að skrá það brot sem til rannsóknar er í málseiningahluta LÖKE með hefðbundnum hætti. Hið ósakhæfa barn skal skrá inn sem málsaðila við brotabeltið. Við stöðu málsaðila skal skrá „Ósakhæft barn”.

Forráðamenn ósakhæfs barns skal skrá inn sem aukaaðila.

5. Lok máls og tilkynningar

Þegar lögregla hefur rannsakað brot ósahæfs barns að einhverju leyti og lögregla telur mál nægjanlega upplýst skal hætta rannsókn málsins að því er varðar þátt hins ósakhæfa og skrá þann lokaferil við viðeigandi málseiningu í LÖKE.

Tilkynning um ákvörðun um að hætta rannsókn skal senda til eftirfarandi aðila:

- Forráðamanna ósakhæfs barns.
- Brotaþola/kæranda eða forráðamanna ef hann er undir 18 ára.

Afrit af tilkynningu skal senda til barnaverndarþjónustu og eftir atvikum til lögmanna brotaþola/kæranda og ósakhæfs barns.

Í tilkynningu skal koma fram:

- Heimfærsla til viðeigandi refsiákvæða ef við á.
- Tilvísun til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála.
- Leiðbeiningar um rétt á rökstuðningi ef hann fylgir ekki.
- Upplýsingar um kærufrest og kæruleið til ríkissaksóknara.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

Tengd skjöl