Fyrirmæli

Um kærur og kvartanir á hendur starfsmanni lögreglu

RS: 3/2023

  • Útgáfudagur: 

    31. mars 2023

  • Gildistaka:

    31. mars 2023

  • RS:3/2023
    Kemur í stað RS: 13/2017

Háttsemi í starfi lögreglu:

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu tekur við erindum frá borgurum sem varða kærur á hendur starfsmanni lögreglu um ætlað refsivert brot í starfi og um kvörtun vegna ætlaðrar ámælisverðar starfsaðferðar eða framkomu starfsmanns lögreglu í starfi í samskiptum við borgara. Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu greinir slík erindi og kemur þeim til viðeigandi meðferðar hjá héraðs­saksóknara, ríkissaksóknara, lög­reglustjóra og/eða ríkislögreglu­stjóra, eftir því sem við á.

Nú leitar borgari á lögreglustöð og telur á sér brotið af hálfu lögreglu og skal þá starfs­­­­­­maður lög­reglu, sem ekki hefur komið að máli viðkomandi borgara sem erindi lýtur að, veita leiðbeiningar um nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, aðsetur nefndar­innar, netfang o.fl.

                                                             Netfang:              nel@nel.is.
                                                             Aðsetur:              Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu
                                                                                              Skuggasundi 3
                                                                                              101 Reykja­vík.
                                                             Símanúmer:      545-8800.

Nú berst lögreglustjóra ábending eða tilkynning um meint refsivert brot starfsmanns lög­­reglu, sem ætla má að bregðast þurfi skjótt við vegna rannsóknarhagsmuna, eða af öðrum ástæðum, og skal lögreglustjóri þá án tafar koma viðeigandi upplýsingum á fram­­­­­færi við héraðssaksóknara, eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Í slíkum tilvikum til­­­kynnir héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari til nefndar um eftirlit með störfum lög­reglu ef rannsókn máls hefur hafist vegna meints brots starfsmanns lögreglu. Hið sama á við ef slík ábending eða tilkynning berst til héraðssaksóknara

Berist héraðssaksóknara eða lögreglustjóra tilkynning um að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft ámælisverða starfsaðferð eða framkomu í starfi eða um að borgari sé ósáttur við almenna starfshætti lögreglu skal án tafar framsenda nefndinni tilkynninguna til meðferðar.

Lögreglustjóri sem hefur móttekið tilkynningu frá borgara, sem framsenda ber nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, eða er með öðrum hætti kunnugt um að slík til­kynn­ing er komin fram, skal hlutast til um að tryggja sönnunargögn eftir því sem við á, s.s. með varðveislu mynd- og hljóðupptaka, eða annarra muna sem hafa sönnunargildi, eða með skráningu upplýsinga, m.a. um atvik, tækjabúnað eða vitni, sem tengjast máli og nýst getur við rannsókn eða aðra meðferð máls sem fellur undir fyrirmæli þessi.

Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996 og reglum um nefnd um eftirlit með lögreglu nr. nr. 222/2017.

 

Refsivert brot starfsmanns lögreglu utan starfs lögreglu:

Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot utan starfs, varði brot þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, eða varði brot gegn ákvæði XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Ef rannsókn beinist að lögreglumanni eða öðrum starfsmanni sem starfar hjá héraðssaksóknara fer ríkissaksóknari með rannsóknina.

Vanhæfi lögreglustjóra til meðferðar máls

Brot skal að jafnaði rannsaka í umdæmi þar sem talið er að það hafi verið framið og ber lögreglustjóri ábyrgð á rannsókn sem fram fer í umdæmi hans. Hafi ætlað brot verið framið í umdæminu sem hinn grunaði starfar í ber lögreglustjóra að taka af­stöðu til þess hvort hann sé vanhæfur til meðferðar málsins, sbr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hafi hið ætlaða brot hins vegar verið framið í öðru um­dæmi en hinn grunaði starfar í ætti lögreglustjóri, sem ábyrgð ber á rannsókn sam­kvæmt framangreindu, venjulega ekki að vera vanhæfur til meðferðar málsins.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl