Um embættið

Yfirlýsing saksóknara og aðstoðarsaksóknara við embætti ríkissaksóknara vegna umfjöllunar um nauðgunarmál – til dómsmálaráðherra

11/12/10

Dómsmála- og mannréttindaráðherra

Hr. Ögmundur Jónasson

Skuggasundi

150 Reykjavík

 

Vegna umfjöllunar undanfarið um meðferð nauðgunarmála hjá embætti ríkissaksóknara senda neðangreindir starfsmenn embættisins, er allir starfa við afgreiðslu nauðgunarmála, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

 

Eins og fram hefur komið í bréfi Valtýs Sigurðssonar til Dómsmála- og mannréttindamálaráðuneytis, dags. 14. október sl., þá er af hálfu embættis ríkissaksóknara lagður mikill metnaður í afgreiðslu kynferðisbrotamála, þar á meðal nauðgunarmála. Þannig njóta nauðgunarmál ákveðins forgangs við afgreiðslu samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara til lögreglustjóra um hámarkstíma meðferðar þessara mála, RS 5/2009. Þá hefur ferill þessara mála verið skoðaður sérstaklega af starfshópum embættisins og lögreglu sem hafa skilað skýrslum um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi.

 

Undirritaðir starfsmenn telja að meðferð nauðgunarmála hjá embætti ríkissaksóknara sé vönduð og í fullu samræmi við gildandi lög sem, ásamt dómafordæmum, marka þá stefnu sem farið er eftir við meðferð málanna.

 

Að ákvörðun um afgreiðslu nauðgunarmála hjá embættinu koma ávallt a.m.k. tveir starfsmenn, en oftast eru þeir þrír til fjórir. Allir þessir starfsmenn meta fyrirliggjandi sönnunargögn og leggja mat á það hvort frekari gagna sé hægt að afla, og gefa, með hliðsjón af 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, rökstutt álit sitt á því hvort að gefa skuli út ákæru í máli, fella það niður eða senda til frekari rannsóknar.

 

Auk gagnrýni sem undanfarið hefur beinst að starfsmönnum ríkissaksóknara vegna meðferðar þessara mála þá hefur spjótum sérstaklega verið beint að Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara. Mesti þunginn í afgreiðslu þessara mála er hins vegar á undirrituðum starfsmönnum embættisins sem leggja fyrir ríkissaksóknara rökstuddar tillögur um afgreiðslur mála. Ekki hefur orðið þess vart að afstaða ríkissaksóknara til afgreiðslu nauðgunarmála væri á skjön við tillögur undirritaðra.

 

Um leið og við lýsum því yfir að við erum að sjálfsögðu viljug til að skoða alla málefnalega og rökstudda gagnrýni á störf okkar í því skyni að við getum gert betur þá  lýsum við því hér með yfir, með hliðsjón af ofangreindu, að Valtýr Sigurðsson nýtur fulls trausts okkar í starfi sínu sem ríkissaksóknari.

 

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari

 

Daði Kristjánsson

saksóknari

 

Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari

 

Kolbrún Benediktsdóttir

settur saksóknari

 

Hulda María Stefánsdóttir

settur saksóknari

 

Dröfn Kjærnested

aðstoðarsaksóknari

 

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir

aðstoðarsaksóknari

Til baka Senda grein